þriðjudagur, nóvember 23, 2004
Tilkynning
Ég hef ákveðið hvorki að gefa né þiggja jólagjafir í ár (Mamma, Pabbi, þetta á ekki við um ykkur, þið þurfið samt að gefa mér) Ástæðan er einfaldlega sú að ég nenni því ekki. Það eiga allir allt, ef fólk vantar eitthvað þá fær það sér það. Ef fólk setur eitthvað á óskalistann þá er það vegna þess að það hefur ekki efni á að fá sér það strax og þá er í verkahring foreldra, ömmu eða afa að verða við þeim óskum. Ég er svo lánsöm að vera hvorki foreldri, amma né afi.
Svo eru kertastjakar og myndarammar um það bil það eina sem mér dettur í hug að gefa. Nú, nema litlir krakkar hafa fengið frá mér prumpublöðrur, prumputæki og fleira í þeim dúr. Ég er viss um að foreldrum þeirra barna sem ég hef gefið gjafir hingað til er pínulítið létt við þessa tilkynningu.
Jólagjafakaup eru líka stressandi og það er ekki á mitt stress bætandi þessa dagana. Býð frekar öllum með mér í kakóbolla niðri í bæ á þorláksmessu til að fylgjast með örvinglaða fólkinu þeysast upp og niður Laugarveginn á síðasta snúning leitandi að sniðugum jólagjöfum sem engan vantar.
Jólagjöfin mín til ykkar er: kaupið ykkur eitthvað fallegt í staðinn fyrir að kaupa eitthvað handa mér, ég mun gera slíkt hið sama og allir eru sáttir.