<$BlogRSDURL$>

fimmtudagur, ágúst 26, 2004

Vegna fjölda áskorana hef ég ákveðið að blogga á ný. Ég er búin að vera í Danmörku, meira að segja er komið langt síðan og Köben var æðisleg. Við Helga vorum mjög duglegar að skoða búðir, bari og tívolí.

Nú er ég byrjuð að vinna aftur á Argentínu, og á mánudaginn byrja ég að kenna píanónemendum ömmu minnar sem er lasin. Það merkilegasta í fréttum er samt að bráðum mun ég kannski yfirgefa alpana fyrir fullt og allt og setjast að í kóngsins köbenhavn. Þetta er enn sem komið er bara hugmynd en hún er á góðri leið með að breytast í ákvörðun.

Svissneska gestinum mínum líkaði bara vel við Ísland og Íslendinga, það eina sem hún átti erfitt með að aðlagast voru matarvenjur og sjónvarpsgláp. Semsagt tók hún eftir því að nánast hvert sem við fórum var sjónvarpið í gangi allan tímann jafnvel þótt enginn væri að horfa. Varðandi matarvenjur þótti henni skrýtið að fólk borðaði ekki alltaf við matarborðið og enginn einn skammtaði á disk fyrir alla hina. Henni þótti landið svakalega fallegt að sjálfsögðu og Íslendingar mjög indælir, held samt að hún hafi verið fegin að komast loksins heim.

miðvikudagur, ágúst 04, 2004

Sælt kæra blogg, afsakaðu vanræksluna en ég er búin að vera mjög upptekin. Ég er semsagt búin að vera að túristast útum allt á Íslandi með svissneska gestinn í næstum 3 vikur, fara á Gullfoss og Geysi, bláa lónið, perluna og Hallgrímskirkjuturn svo eitthvað sé nefnt. Svo fórum við 1 dag með pabba og Stebbu á Snæfellsnes og í fuglaskoðunarsiglingu í Breiðafirði þar sem ég át lifandi skelfisk og Ígulker. Aldrei hefði mig grunað að ég hefði látið mig hafa slíkt, enda var því spítt út á mettíma. Kom í gær úr 5 daga ferðalagi um Vestfirði ásamt Helgu Rósu og Evu-Maríu. Þar af vorum við 3 daga í bústað á Barðarströnd rétt hjá bóndabæ ömmu og afa Helgu. Þess á milli sem var spilað og sullað létum við rigna á okkur í pottinum, fórum í fjósið og skoðuðum Látrabjarg. Á sunnudeginum keyrðum við svo á Ísafjörð þar sem mamma Helgu býr og skoðuðum bæina í kring. Þess má geta að Helga hetja keyrði alla leiðina og lenti ekki í neinu óhappi. Ég keyrði í 5 mínútur og það sprakk.
Á morgun ætla ég að stinga gestinn af og skella mér í 4 daga til Köben með Helgu Smiles sem minnir mig á eitt:

Veit einhver um gistingu fyrir okkur í Köben??? Við erum afar penar og vel lyktandi, höfum ekki hátt og erum aldrei heima.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?