<$BlogRSDURL$>

föstudagur, desember 23, 2005

Þorláksmessa

Síðasti bootcamp tíminn byrjar eftir 5 mínútur og ég get ekki farið því ég er lasin, glaatað! Samt ágætt að sleppa við vigtun og mælingu eftir allt smákökuátið í desember.

Er samt ekki meira lasin en svo að ég kemst á La Primavera kl. 2 með mömmu og bræðrum mínum. Höfum haft það að sið í mörg ár að fara í hádegismat á þorláksmessu meðan Finnur fer í skötu. Hingað til höfum við alltaf farið á Pizza hut á Sprengisandi, veit ekki afhverju í ósköpunum sá staður varð alltaf fyrir valinu. Mig minnir að það sé því mömmu finnst húsið svo jólalegt og bræður mínir voru svo litlir þegar við byrjuðum að fara. Ár eftir ár hefur ágæta Pizzahutstarfsfólkinu tekst að finna upp nýtt klúður. Enginn komið að taka pöntun, vitlaus pöntun, kaldur matur, enginn matur, drykkir komið þegar matur er búinn, aðalréttur komið á undan forrétti... name it,og alltaf fórum við aftur. Núna hinsvegar eru báðir bræður mínir orðnir stærri en ég og tími kominn til að prufa fullorðinsstað. (Geir minn, mundu að skilja nintendo eftir heima og Kári, þetta er fínn staður, nota hnífapör!!!)

Ég er að sjálfsögðu búin að opna öll jólakortin og ég fékk jólakort frá forsetanum og Dorrit. Þau hafa aldrei sent mér áður. (líklega voru þau ekki með heimilisfangið mitt í Sviss) Fengu fleiri jólakort frá forsetahjónunum? Eða er það bara fína og fræga fólkið sem fær svoleiðis:)

miðvikudagur, desember 21, 2005

Ég hermdi eftir Betu frænku og gerði svona próf og eins og niðurstöðurnar eru viðeigandi þá finnst mér samt eitthvað ógeðfellt við að bragðast eins og fiskur. Sammála?

sushi
You taste like sushi. Yes, you're a bit fishy, but
if handled by the right person, you become a
delicacy. People with expert hands bring out
the best in you and your smooth texture leaves
tongues very happy.


How do you taste?
brought to you by Quizilla


Nýjustu fréttir voru að berast í hús, ég er að fara til Sviss á miðvikudaginn og verð eitthvað framyfir áramót. Verð væntanlega á skíðum í San Moritz ásamt Hilmari frænda og fleirum útvöldum í nokkra daga og fer svo til Luzern og heimsæki alla. Gamangamangaman:)

þriðjudagur, desember 20, 2005

4 dagar til jóla, ótrúlegt, ég virðist hafa misst af desember.
Ég er búin að vera að leysa af í Tónlistarskólanum í Hafnarfirði undanfarinn mánuð og verð a.m.k. fram í febrúar. Ég er með ca. 25 píanónemaendur eins og er og þau voru með jólatónleika áðan og voru svoo dugleg:)

Við í saumaklúbbnum erum búnar að bóka okkur til Köben í lok apríl, förum 6-7 saman og ég held að sú ferð bara geti ekki orðið annað en skemmtileg. Nema kannski ef hangið verður of mikið í barnafatabúðum, pant ekki vera með þar.


Ég sendi engin jólakort (takk allir sem eru búnir að senda mér, ég opna alltaf jólakortin strax, er svo forvitin) EN ef einhver vill gefa mér jólagjöf þá er ég með bunka af skemmtilegum gjöfum heima hjá mér sem ég mun útdeila af handahófi til allra þeirra sem koma með pakka til mín.

miðvikudagur, desember 07, 2005

Tiltektin heldur áfram og ég stend mig að því að tíma ekki að henda neinu. Ég byrjaði að sortera uppúr 4 kössum fyrir klukkutíma, tókst að henda 2 pokum en það eru enn eftir 4 kassar og ekkert pláss. Kannski gengi þetta hraðar ef ég þyrfti ekki að lesa hvert einasta blaðsnifsi og skoða hverja einustu mynd jafnóðum. Ætla að skella inn einni smásögu sem ég gerði í 4. bekk í menntó. Ég fékk uppgefnar 3 setningar (skáletrað) og átti að spinna út frá því. Hér er afraksturinn:

Sunnudagsleikurinn
smásaga

Ég minntist þess ekki að hafa tekið eftir kistunni þegar ég kom inn. Hvað sem því líður hélt ég að ég sæti ein eftir í rökkrinu í stofunni þegar þau fóru. Í loftinu lá einkennilega þétt spenna. Þau skelltu hurðum en ég settist þögul í gamla hægindastólinn við ofninn til þess að fara yfir atburðarásina í huganum og átta mig á því hvað hefði eiginlega gerst. Þá lyftist kistulokið gætilega eins og ekkert væri sjálfsagðara og upp úr kistunni klöngraðist mannvera sem greinilega taldi sig vera eina í stofunni.
"Siggi" hrópaði ég, því maðurinn í kistunni var enginn annar en Siggi, elsti bróðir minn. "Þarna ertu þá!" "Jæja Þuríður mín", sagði hann hægt og það var greinilegur mæðutónn í rödd hans, "nú hefurðu komist að leyndarmálinu sem mér hefur tekist að varðveita í hartnær hálfa öld. Ég get auðvitað engu um það ráðið hvort þú segir hinum frá því sem þú hefur orðið vísari, en ég treysti því að þú gerir það sem þér þykir réttast."
Svona var hann Siggi, alltaf svo skynsamur. Mér varð hugsað til áranna þegar þetta allt byrjaði. Við höfðum haldið þeim sið frá því við vorum lítil að fara í feluleik á sunnudögum hér á æskuheimilinu sem nú var orðið heimili Sigga. Hugmyndin að leiknum var upphaflega hans þannig að hann faldi sig að sjálfsögðu fyrstur. Reglurnar voru þannig að sá sem vann í hvert skipti fékk að fela sig næsta sunnudag. Svona vorum við búin að hjakka í sama farinu, sunnudag eftir sunnudag, ár eftir ár og alltaf vann Siggi sem nú var farinn að nálgast áttrætt. Hvern hefði grunað að hann feldi sig alltaf á sama staðnum. Leikurinn sem var búinn að vera fastur punktur í lífi okkar systkinanna alla sunnudaga, hafði oftar en einu sinni valdið missætti meðal okkar en aldrei fyrr höfðum við rifist eins heiftarlega og nú. Ég var viss um að þetta hlyti að marka endalok leiksins en mér þótti mjög erfitt að kyngja því. Spennan lá lengi í loftinu eftir nýafstaðið rifrildi um framtíð feluleiksins.
Reyndar hafði ekkert okkar veitt kistunni sérstaka athygli þó svo hún hafi alla tíð staðið í stofunni. Hún var á árum áður full af gömlum bókum og þar að auki alltaf læst þannig að engum hafði hugkvæmst að leita í henni. "Af hverju fórst þú ekki með hinum?" spurði Siggi mig eftir langa vandræðilega þögn. "Æ, mig langaði bara til þess að hvíla mig. Svo vissi ég að þú hlytir að láta sjá þig fyrr eða síðar, svo ég ákvað bara að bíða. Þú hefur líklega heyrt hvað gekk hér á. Fríða og Eyjólfur sjá fram á að þeim endist ekki aldur til að röðin komi að þeim að fá að fela sig og þeim þykir þessi vitleysa hafa staðið nógu lengi og tími kominn til að hætta."
Mér fannst sárt að hugsa til þess að þurfa að hætta, því ég hafði beðið með eftirvæntingu þess dags að ég fengi að fela mig og nú hafði ég loksins fundið Sigga, en þá benti allt til þess að við myndum aldrei leika þennan leik aftur. Svo myndi enginn trúa mér.
Ég fékk kökk í hálsinn við þessa tilhugsun og reyndi að láta Sigga ekki sjá að ég var alveg að fara að gráta. Það var ekki auðvelt að blekkja Sigga og þrátt fyrir slæma sjón og heyrn sá hann að eitthvað amaði að mér. "Svona, svona Þuríður mín, nú skulum við finna lausn á þessu í sameiningu. Ég skal bara ræða við systkini okkar um að leika leikinn aftur næsta sunnudag og þá kem eg ekki upp úr kistunni fyrr en þú finnur mig."
Ég trúði því ekki að Siggi skyldi leyfa mér að finna sig eftir öll þessi ár. Næsta sunnudag fengi ég að upplifa þá stóru stund að finna Sigga. Ég gat varla beðið. Loksins fengi ég að fela mig. Dagarnir liðu hratt og að lokum rann sunnudagurinn upp. Ég mætti eldsnemma á undan Fríðu og Eyjólfi með tertu og sérrí til að halda upp á þennan merkilega dag og beið með eftirvæntingu eftir hinum.
Ég þurfti ekki að bíða lengi og við hófum leikinn strax og allir voru komnir. Við lokuðum augunum og töldum upp á hundrað meðan Siggi faldi sig. Ég vildi ekki sýnast grunsamleg þannig að ég byrjaði á því að leita í eldhúsinu og var þar dágóða stund. Ég fann að ég titraði af spenningi. Ég sá fyrir mér svipinn á Fríðu og Eyjólfi þegar ég hrópaði upp "Fundinn!" Ég flýtti mér út úr eldhúsinu og fór fram á gang og svo aftur inn í eldhús og þá mundi ég ekki fyrst hvers vegna ég hafði farið fram. Svo rifjaðist það strax upp fyrir mér að ég ætlaði að fara að finna Sigga bróður minn og flýtti mér æst fram aftur. Ég fór inn í stofu og sá þar í bakhlutann á Eyjólfi þar sem hann var að gramsa í blaðakörfunni en þar leitaði hann alltaf vel og lengi að Sigga. Mér var skemmt við þessa sjón í ljósi þess að innan skamms myndi ég verða sú systkinanna sem fyndi hann fyrst og hvað það yrði ljúft að halda upp á sigurinn með sérríinu og Sachertertunni. En svo dimmdi skyndilega yfir öllu. Mér var lífsins ómögulegt að muna hvar hann hafði falið sig.

föstudagur, desember 02, 2005

Nostalgía

Það er ár og dagur síðan ég skrifaði þetta og í dag er ár síðan ég flutti heim frá Sviss.

Á morgun er ár síðan þessi mynd var tekin.

Þetta er búið að vera frekar viðburðaríkt ár, ég flutti tvisvar, keypti og gerði upp íbúð, vann sem þjónn, píanókennari, leikfimikennari, einkaþjálfari, afgreiðsludama og ég er örugglega að gleyma einhverju þarna, fór 5 sinnum til útlanda (frá 1. des ekki 2005) fékk mér kisu...



Tékklisti fyrir næsta ár:

-halda tónleika
-heimsækja vini og ættingja í útlöndum
-læra meira
-halda fullt af trendí matarboðum í nýju íbúðinni minni, suhsi, raklett og svoleiðis
-halda innflutningspartý
-eignast bíl
-læra á peninga og skatta og fleira fullorðins
-eyða minni tíma í tölvunni, meiri fyrir framan píanóið
-horfa minna á sjónvarp, hlusta meira á tónlist
-fara a.m.k. einusinni í píanótíma erlendis

This page is powered by Blogger. Isn't yours?