<$BlogRSDURL$>

fimmtudagur, janúar 26, 2006


Hér eru svo fleiri myndir frá Sjávarkjallaranum ykkur til ánægju og yndisauka:)

laugardagur, janúar 21, 2006

Við Hrefna, Þórdís og Maggý Pragfarar fórum út að borða á Sjávarkjallarann í gær. Áttum pantað borð klukkan 20.00 og mættum stundvíslega klukkan að verða 21.30 því við misreiknuðum eitthvað hvað við þyrftum langan tíma til að hafa okkur til. En sjúúúklega fengum við góðan mat og vín. Við þurftum ekki að ákveða neitt og höfðum ekki hugmynd um hvað við vorum að fara að fá. Fyrst kom kampavín svo kom cosmopolitan. Svo kom lystauki, marineraður túnfiskur. Ég held við höfum fengið umþaðbil alla réttina á seðlinum: sashimi, suhsi, hörpuskel, humar, krabba, túnfisk, kengúru, önd, lax svo eitthvað sem nefnt. Vínin voru ekki af verri endanum heldur. Sjávarkjallarinn bætti svo sannarlega fyrir vonda matinn sem við fengum einusinni þar í hádeginu og hækkaði fullt í áliti hjá okkur öllum. Vel eftir miðnætti og nokkrum cosmopolitan seinna rúlluðum við út af Sjávarkjallaranum, saddar, sælar og síðastar (að venju). Vel heppnað kvöld og við erum strax byrjaðar að skipuleggja næsta. Þá ætlum við í dekurdag og svo elda heima hjá Hrefnu. Og svo mála bæinn rauðan að sjálfsögðu:)

Nú er ég að passa Diljá og ég held að henni finnist ekki mikið stuð hjá mér í dag þar sem ég nenni ómögulega að standa upp úr sófanum. Bæti það upp með kvöldgöngutúr.

Ég ætlaði að vera löngu búin að skrifa meira um Svissferðina og setja inn myndir, bara skil ekki afhverju það er ekki enn búið að gerast. Smá brot samt:

Eftir nokkra daga í te-prísundinni hjá reglusömu vinkonu minni skrapp ég að heimsækja Tinu sem býr í Thalwil rétt fyrir utan Zurich. Það var bara eins og að vera komin heim. Við fengum okkur fetaost og ólívur heima hjá henni og síðan kíktum við í heimsókn til Heinz, kunningja hennar, sem er þýskur sextugur olíubarón. Hann býr í risa gamaldags villu ásamt lettnesku þjónustustúlkum/ástkonum sínum. Þar var boðið upp á prosecco og svo var okkur skipað að vera í mat líka. Þvínæst lá leiðin á bar að hitta kærasta Tinu og þaðan fórum við heim, horfðum á Bridget Jones í hundraðasta sinn og fengum okkur pasta og rauðvín með. Um morguninn vaknaði ég svo við kaffiilm, mjög ljúft.

fimmtudagur, janúar 05, 2006

Gleðilegt ár allirsaman! Nú er ég stödd í Luzern, eftir að hafa verið nokkra daga á skíðum í St. Moritz (sem er líka í Sviss) Þangað lagði ég af stað þann 28. des klukkan hálf6 um morgun og var komin á áfangastað hálf8 morguninn eftir eftir 26 tíma ferðalag þar sem allt mögulegt fór úrskeiðis. Seinkun, flug fellt niður, töskur fastar í flugvél 3 tíma eftir lendingu, bílferð um alpana á sumardekkjum, árekstur und so weiter und so fort. Hitastigið fyrstu dagana var mínus 15 til 20 gráður og það var svo kalt að þegar maður andaði inn var eins og maður væri að anda að sér litlum ísnálum. Held það hafi verið frosin nefhár. Að misheppnaða ferðalaginu frátöldu er þetta búin að vera frábær ferð. Fór á skíði og stefndi þar með sjálfri mér og öðrum í skíðabrekkunum í lífshættu því ég var um það bil sú eina sem kann ekki á skíði og þurfti að nota allt plássið í brekkunum til þess að beygja og ef það kom brött brekka þurfti ég að snarstoppa og telja í mig kjark. Þetta var reyndar bara fyrsta daginn svo fór ég batnandi og síðasta daginn gat ég farið alveg sjálf niður heilt fjall næstum án þess að stoppa. Það skyldi þó ekki vera að þessi skíðahefta mín sé vegna þess að í fyrsta sinn sem ég fór á skíði þegar ég var lítil, sem var í Kerlingafjöllum, tókst mér að fótbrjóta mig í fyrstu brekkunni sem ég fór í fyrsta daginn og skemma þar með vikuskíðaferð fyrir mér og mömmu.

Það er mjög gaman að vera komin aftur hingað en ég er samt sannfærðari en nokkru sinni fyrr að ég hafi gert rétt að flytja aftur heim. Fólkið er bara ekki á minni bylgjulengd þó það sé frábært í hófi. Tildæmis gisti ég hjá vinkonu minni núna og hún á ekki sjónvarp. Ég kom hingað í fyrradag og hugsaði strax: en fín íbúð en hvað vantar eiginlega??? aha, ekkert sjónvarp! Ég hugsa bara eins og Joey í friends, að hverju beinir maður þá eiginlega húsgögnunum? Hún á heldur ekki kaffivél því hér er bara drukkið te. Ekki kaffi, ekki vín, bara te. Allan daginn. Svo er svissþýska nöldurmál. Sama hvað er verið að segja, það hljómar eins og nöldur og nag. Líklega þessvegna sem enginn svissneskur maður hefur nokkurntímann heillað mig, þeir verða bara svo djöfull asnalegir þegar þeir tala svissþýsku.

Ég er búin að taka fullt af myndum sem ég skal setja inn þegar ég kem heim. Ef þið viljið afsaka mig þá er ég að hugsa um að lesa bók og fá mér te:)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?