<$BlogRSDURL$>

fimmtudagur, janúar 05, 2006

Gleðilegt ár allirsaman! Nú er ég stödd í Luzern, eftir að hafa verið nokkra daga á skíðum í St. Moritz (sem er líka í Sviss) Þangað lagði ég af stað þann 28. des klukkan hálf6 um morgun og var komin á áfangastað hálf8 morguninn eftir eftir 26 tíma ferðalag þar sem allt mögulegt fór úrskeiðis. Seinkun, flug fellt niður, töskur fastar í flugvél 3 tíma eftir lendingu, bílferð um alpana á sumardekkjum, árekstur und so weiter und so fort. Hitastigið fyrstu dagana var mínus 15 til 20 gráður og það var svo kalt að þegar maður andaði inn var eins og maður væri að anda að sér litlum ísnálum. Held það hafi verið frosin nefhár. Að misheppnaða ferðalaginu frátöldu er þetta búin að vera frábær ferð. Fór á skíði og stefndi þar með sjálfri mér og öðrum í skíðabrekkunum í lífshættu því ég var um það bil sú eina sem kann ekki á skíði og þurfti að nota allt plássið í brekkunum til þess að beygja og ef það kom brött brekka þurfti ég að snarstoppa og telja í mig kjark. Þetta var reyndar bara fyrsta daginn svo fór ég batnandi og síðasta daginn gat ég farið alveg sjálf niður heilt fjall næstum án þess að stoppa. Það skyldi þó ekki vera að þessi skíðahefta mín sé vegna þess að í fyrsta sinn sem ég fór á skíði þegar ég var lítil, sem var í Kerlingafjöllum, tókst mér að fótbrjóta mig í fyrstu brekkunni sem ég fór í fyrsta daginn og skemma þar með vikuskíðaferð fyrir mér og mömmu.

Það er mjög gaman að vera komin aftur hingað en ég er samt sannfærðari en nokkru sinni fyrr að ég hafi gert rétt að flytja aftur heim. Fólkið er bara ekki á minni bylgjulengd þó það sé frábært í hófi. Tildæmis gisti ég hjá vinkonu minni núna og hún á ekki sjónvarp. Ég kom hingað í fyrradag og hugsaði strax: en fín íbúð en hvað vantar eiginlega??? aha, ekkert sjónvarp! Ég hugsa bara eins og Joey í friends, að hverju beinir maður þá eiginlega húsgögnunum? Hún á heldur ekki kaffivél því hér er bara drukkið te. Ekki kaffi, ekki vín, bara te. Allan daginn. Svo er svissþýska nöldurmál. Sama hvað er verið að segja, það hljómar eins og nöldur og nag. Líklega þessvegna sem enginn svissneskur maður hefur nokkurntímann heillað mig, þeir verða bara svo djöfull asnalegir þegar þeir tala svissþýsku.

Ég er búin að taka fullt af myndum sem ég skal setja inn þegar ég kem heim. Ef þið viljið afsaka mig þá er ég að hugsa um að lesa bók og fá mér te:)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?