miðvikudagur, maí 16, 2007
Ég var að koma af útskriftartónleikum í Salnum og komst að því enn aftur að það eru allt of margir sem bara kunna sig ekki á tónleikum. Þessir fáu sem mættu voru að klappa á vitlausum stöðum, milli þátta og svona og æða inn þegar tónleikarnir voru löngu byrjaðir. Það er kannski skiljanlegt hjá fólki fer aldrei á tónleika og þekkir ekki verkin sem er verið að spila. Þessvegna, mín kæru, eru hér leiðbeiningar, ef þið neyðist einhverntímann til að fara á tónleika (til dæmis hjá mér).
- Mætið tímanlega, það er glatað að koma of seint.
- Ef þið komið óvart of seint, bíðið með að opna dyrnar þangað til að þið heyrið klapp og læðist þá inn og setjist í fyrsta sætið sem þið sjáið, getið svo fært ykkur í hléinu.
- Ef þið eruð ekki viss hvenær á að klappa, horfið á einhvern sem virðist vanur og klappið þegar hann klappar.
- Takið með myntur eða eitthvað ef þið eruð með hósta og reynið að sitja við ganginn ef þið gætuð þurft að rjúka út.
- EKKI TAKA MEÐ ÓÞEKK BÖRN Á TÓNLEIKA eða smábörn sem fara að grenja eða hafa hátt. Þó ykkur finnist það voða krúttlegt þá er það ekki við hæfi.
- Reynið að forðast að vera með hárgreiðslu sem nær alveg upp í ljósakrónu og ef þið eruð risar, þá er voða kurteist að hlamma sér ekki beint fyrir framan dverg. (þetta gildir við fleiri tilefni, td. í kvikmynda- og leikhúsum)
- Ekki prumpa.
Góða skemmtun