föstudagur, maí 23, 2008
Flugið til Cannes gekk vel þrátt fyrir frekar lélegt skyggni. Fyndnast var þegar við vorum rétt hjá París og flugumferðastjórinn spurði Hilmar hvort það væri einhver moviestar um borð. Hilmar svaraði um hæl að það væri bara ein pornomoviestar. Flugumverðastjórinn hefur áttað sig á hvað þetta var asnaleg spurning og talaði ekki meira við okkur. Við komum til Cannes á síðustu bensíndropunum því við gátum ekki flogið yfir fjöllin vegna skýja og þurftum að fljúga meðfram ströndinni. Cannes flugvöllur var pakkaður eins og von var á:
Á laugardagskvöldinu fórum við að hitta Frank og Casper, mjög skemmtilegt kvöld verst hvað ég nennti ekki að taka myndir.
Á mánudeginum gerðum við tilraun til að fljúga til Genfar á flugsýningu. Eitthvað höfum við ekki skoðað veðrið nógu vel því á vegi okkar varð risa þrumuský. Hilmar var bjartsýnn og sagði mér að klifra bara yfir það, og ég klifraði og klifraði og klifraði þar til vélin vildi ekki klifra meir og ég bað Hilmar að taka við. Í 16500 fetum voru neglurnar orðnar bláar og mig farið að svima og við komin beint inn í þrumuskýið. Við fengum ís á vængina og eina í stöðunni var að snúa við. Svona leit þrumuskýið út þegar við vorum að fljúga inn í það, mæli með að forðast þau eins og fjöll.
Við þurftum að snúa við til Cannes, hér er ég að fljúga yfir Saint-Tropez á leiðinni til baka:
Daginn eftir gerði Hilmar aðra tilraun til að fara til Genfar en veiktist þannig að við vorum annan aukadag í Cannes, slepptum alveg Genf og flugum til baka til London á miðvikudeginum.
Það flug gekk eins og í sögu fyrir utan smá vesen yfir París þegar headsettið hans Hilmars bilaði og ég þurfti að taka alveg yfir radioinu og hann heyrði ekki neitt og það var brjálað að gera. Þetta reddaðist að sjálfsögðu eins og allt og við komumst heil til London, mögulega aðeins óvinsæl hjá flugumferðastjórum Evrópu.
Nú er ég í London á leiðinni heim í kvöld. Það er pottþétt mér að þakka að Ísland komst áfram í Júróvision í gær því ég kaus nokkrum sinnum, þó mér finnist þetta ferlega leiðinlegt lag, bara til þess að það verði meira stuð í júrópartýi á morgun.